Lúxushótelið ION Luxury Adventure Hótel opnaði um helgina undir hlíðum Hengils á Nesjavöllum. Fallegt útsýni er frá hótelinu yfir Þingvallavatn og fjallgarðinn í kring. Í því eru alls 46 herbergi, veitingastað, Norðurljósabar og þá einnig Spa með 10 metra langri útisetlaug, nuddaðstöðu, gufubaði og hvíldarherbergi.

Í tilkynningu er haft eftir Sigurlaugu Sverrisdóttur, eiganda og framkvæmdastjóra hótelsins, að byggt sé á náttúrulegri og umhverfisvænni hönnun en öll húsgögn, efnisval, lín og handklæði er valið með það í huga. Þá eru ljós úr endurunnum bylgjupappa, handlaugar úr endurunnum dekkjum og stóla úr endurnýttu gervigrasi af gervigrasvelli.

Arkitektastofan Minarc hannaði nýbygginguna og innréttingar en það eru hjónin Erla Dögg Ingjaldsdóttir og Tryggvi Þorsteinsson sem eiga heiðurinn af því. Að auki komu margir hönnuðir, stílistar og ráðgjafar að verkefninu.

Á hótelinu er veitingastaðurinn Silfra og er matseðillinn þar byggður á slow-food hugmyndafræði. Þar verður boðið uppá mat úr nágrenninu, lamb frá bónda á svæðinu, grænmeti frá Engi og fisk úr Þingvallavatni. Lítil gjafavöruverslun verður á ION Hótel sem mun bjóða upp á sérhannaðar íslenskar vörur og hönnun.

Fleiri myndir má sjá á Facebook-síðu hótelsins.