Maran Seafood A/S, dótturfélag Sigurðar Ágústssonar ehf. í Danmörku, hefur keypt danska fyrirtækið Hevico A/S. Hevico sérhæfir sig í framleiðslu á heitreyktum silungi og er stærst á sínu sviði í Evrópu. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka veitti ráðgjöf í tengslum við kaupin og sá Íslandsbanki um fjármögnunina.

Hevico er staðsett í Vejle í Danmörku og var stofnað af fimm einstaklingum árið 1992, sem höfðu þá þegar mikla reynslu í greininni. Rekstur félagsins hefur verið afar traustur og uppbygging þess gengið vel, en hjá fyrirtækinu starfa nú um eitt hundrað starfsmenn. Hevico framleiðir í smápakkningar úr 6.000 tonnum af hráefni frá dönskum eldisstöðvum og er stærsti markaður þess í Þýskalandi.

Sigurður Ágústsson keypti Maran Seafood árið 2002 en fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á skelfiskafurðum í saltlegi. Framleiðsluvörur Sigurðar Ágústssonar og dótturfélaga liggja vel saman og seljast inn á svipaða markaði. Stefnt er að sameiningu dönsku fyrirtækjanna á næstunni. Áætluð velta samstæðunnar mun verða um 3,5 milljarða íslenskra króna á ári.