Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, spyr blaðamenn Børsen í viðtali við danska viðskiptablaðið hvort þeir séu að skrifa skáldsögu, aðspurður um mögulega sölu Kaupþings á danska bankanum FIH.

„Þið hafið allskostar rangt fyrir ykkur," segir hann við Børsen.

Blaðið segir frá því í dag að Kaupþing íhugi nú að selja danska bankann FIH út úr samstæðu sinni til að bæta lausafjárstöðu sína. Kaupþing tók bankann yfir á árinu 2004 fyrir 7,1 milljarð danskra króna.

Verðmæti lánasafns FIH í  Danmörku nemur 76 milljörðum danskra króna, eða sem nemur tæplega 1100 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi.

Henrik Sjøgreen hjá FIH neitar jafnframt sögusögnum um söluna: „Ég hef heyrt þessa sögu í mörgum mismunandi útgáfum, víðsvegar að í Evrópu," segir hann.

„Þetta hefur staðið yfir í þrjú ár - FIH verður ekki seldur. Ég er þess viss að Kaupþing eru ánægðir að eiga bankann," segir Sjøgreen.