Að sögn Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings, er stemning á fjármálamörkuðum enn mjög erfið og það er ekkert endilega eitthvað sem beinist að Íslendingum einum.

„Þetta er alþjóðleg kreppa og menn vita ekki hve lengi þetta varir," sagði Sigurður í samtali við Viðskiptablaðið og lagði áherslu á að menn mættu ekki halda að þetta ástand væri einskorðað við Ísland.

Undanfarna daga hefur hann verið að funda í Noregi og Svíþjóð og gefið viðtöl við þarlenda blaðamenn. Sigurður sagði að viðhorfin væru vissulega misjöfn en það væri mikilvægt fyrir Íslendinga að vera duglegir að segja sína sögu sjálfir.

„Það skiptir miklu að vera duglegir við að útskýra okkar sjónarmið og það má jafnvel gagnrýna okkur fyrir að vera ekki nógu duglegir á því sviði."

Sigurður hefur gagnrýnt harðlega markaðinn með skuldatryggingar bankanna.

„Þetta er í raun meira og minna ónýtur markaður enda má segja að lítið sem ekkert eftirlit sé með honum. Þannig liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um hverjir eru að versla á þessum markaði. Þannig er greinilegt að menn voru að skortselja á þessum markaði án þess að sæist hverjir voru að því."

____________________________________

Nánar verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld, lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .