Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings hafa sagt sig úr stjórn danska bankans FIH Erhvervsbank, sem áður var dótturfélag Kaupþings.

Þetta kemur fram í danska viðskiptablaðinu Börsen í dag og vitnað er í tilkynningu frá bankanum.

Í frétt Börsen kemur fram að bankinn er nú, í framhaldi af hruni íslenska bankakerfisins, í sölumeðferð.

Þá verður haldinn aukaaðalfundur þann 15. janúar næstkomandi til að kjósa nýja einstaklinga í stjórn bankans.

Þá greinir Börsen frá því að FIH hefur tvívegis frá því í október breytt afkomuáætlun fyrir síðasta ár. Upphafþega var gert ráð fyrir að hagnaður bankans yrði 800-1000 milljónir danskra króna eftir skatta en nú er áætlað að hagnaður bankans verði -300 milljónir eftir skatta.

Rétt er að rifja upp að FIH var settur að veði fyrir 500 milljarða króna láni sem Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi skömmu fyrir bankahrunið hér á landi í byrjun október.