Fullyrt er á vef Daily Mail að Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hafi keypt hús í vesturhluta Lundúna, fyrir um 10,5 milljónir punda, mánuði áður en Kaupþing féll.

Það svarar til liðlega tveggja milljarða íslenskra króna.

Með fréttinni fylgir mynd af húsinu og þar enn fremur staðhæft að Kaupþing hafi fjármagnað kaupin.

Í fréttinni segir enn fremur að húsið sé fjögurra herbergja og að Sigurður hafi keypti það vel yfir markaðsvirði. Munurinn hafi numið um 2,5 milljónum punda.

Sparifé þúsundir Breta í hættu

Neðar í sömu frétt segir frá því að fulltrúar breskra stjórnvalda vinni nú að því að aðstoða sveitarfélög sem hafi orðið illa úti í bankakreppunni á Íslandi. Sparifé þúsundir Breta sé í hættu vegna hennar.

Fjöldi opinberra aðila  í Bretlandi hafi fjárfest í íslenskum bönkum, sem nú séu farnir á hausinn. Þar fyrir utan séu um 800 störf í hættu vegna lokunar Kaupþings, Singer and Friedlander.

Í lok fréttarinnar segir frá því að eignir Kaupþings hafi í síðustu viku verið frystar í Bretlandi og að hlutur fjárfesta hafi þurrkast út þegar Fjármálaeftirlitið greip inn í rekstur Kaupþings.