Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, segir að ljóst hafi verið um slæma stöðu Icesave reikninga Landsbankans mars 2008 en ekkert hafi verið aðhafst að hálfu Fjármálaeftirlitsins þá. Sigurður  segir að FME hefði átt að stöðva innlán inn á Icesave þá þegar.

Sigurður var gestur Björns Inga Hrafnssonar í Markaðnum á Stöð 2 nú í morgun.

Þar ræddi hann m.a. aðdraganda að falli Kaupþings og fjármálakreppuna á Íslandi.

Sigurður sagði að samskipti Kaupþings við Seðlabankans hafi verið afar slæm og Seðlabankinn hafi komið í veg fyrir að Kaupþing hafi skráð hlutafé sitt í evrum. Íslenska krónan væri aftan úr fornöld og staða Kaupþings væri önnur í dag ef krónunnar nyti ekki við. Stærstu mistök Kaupþings hafi verið að flytja ekki höfuðstöðvar sínar úr landi.

Sigurður fullyrti einnig að Seðlabankinn hafi sagt nei við afar stóru láni sem honum hafi boðist aðeins nokkrum vikum fyrir fall bankanna.