Danska götublaðið Ekstra Bladet hefur gagnrýnt íslenska athafnamenn og Árna Mathiesen fjármálaráðherra  fyrir að svara ekki blaðamönnum sínum og vangaveltum þeirra um peningaþvætti og skattamisferli íslenskra athafnamanna.

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings banka, hefur nú sent Ekstra-blaðinu svör við 21 spurningu blaðamannsins John Mynderup, en á blaðamannafundi bankans í Kaupmannahöfn flaggaði Mynderup skjali frá bankanum í Lúxemborg sem hann sagði óvenjulegt.

Skjalinu er ætlað að verja Kaupþing banka fyrir peningaþvætti og slík skjöl eru vottuð af starfsmönnum. Mynderup sagðist telja skjalið óvenjulegt, en Sigurður fullyrti að slík skjöl væru algeng, og lofaði danski blaðamaðurinn Sigurði rauðvínsflösku ef hann gæti sannfært sig um það.

Með svörum við spurningum Ekstra-blaðsins sendi Sigurður slíkt skal frá yfirvöldum í Lúxemborg og reiknar hann nú með rauðvínssendinugu frá Mynderup. Ekki er vitað til þess að svör Sigurðar hafi verið birt í Ekstra-blaðinu í dag og enn hafa þau ekki ratað á vefsíðu blaðsins.