Sigurður Einarsson, fyrrv. starfandi stjórnarformaður Kaupþings, verður yfirheyrður hjá sérstökum saksóknara í dag.

Þetta staðfesti Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í samtali við Viðskiptablaðið.

Sem kunnugt er var Sigurður boðaður til yfirheyrslu í byrjun maí sl., um svipað leyti og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrv. forstjóri Kaupþings og Magnús Guðmundsson, fyrrv. forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, voru kallaðir til yfirheyrslu. Þeir Hreiðar Már og Magnús voru í framhaldi af yfirheyrslunum úrskurðaðir í gæsluvarðhald, Hreiðar Már í níu daga og Magnús í viku.

Sigurður, sem búsettur er í Lundúnum, neitaði hins vegar að koma til landsins og í kjölfarið var gefin út handtökuskipun á hendur honum sem meðal annars var birt á síðu Interpol. Handtökuskipunin hefur nú verið felld úr gildi enda hefur Sigurður orðið við beiðni sérstaks saksóknara um að mæta í yfirheyrslu og kom sjálfviljugur til Íslands.

Ekkert liggur enn fyrir um það hvort að krafist verður gæsluvarðhalds yfir Sigurði. Slíkt er venjulega ekki gert fyrr en að yfirheyrslu lokinni og veltur á ferli og þróun rannsóknarinnar. Í vor taldi sérstakur saksóknari það þjóna hagsmunum rannsóknarinnar að krefjast gæsluvarðahalds yfir þeim Hreiðari Má og Magnúsi með þeim rökum að þeir gætu spillt rannsóknarhagsmunum.

Héraðsdómur varð við beiðninni og Hæstiréttur staðfesti hana eftir að hún var kærð þangað.