Það verður ekki hjá því komist að spyrja Sigurð G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmann, sem sat í stjórn Glitnis við fall bankans haustið 2008, um aðdragandann að hruninu og hans viðhorf um það sem þar gerðist.

Segir Sigurður að Glitnir, eins og aðrir íslenskir bankar, hafði átt í miklum erfiðleikum með að fjármagna sig á árinu 2008 og því taldi stjórnin sem tók við bankanum fyrr á því ári rétt að draga sem mest úr starfsemi bankans.

„Ef það er skoðað hvað stjórnin var að gera fram að hruni, s.s. fækkun starfsfólks og lækkun launa svo dæmi sé tekið, þá kemur í ljós að menn unnu mjög heilsteypt að því að draga úr kostnaði hjá bankanum,“ segir Sigurður og bætir við að á sama tíma hafi einnig verið reynt að breyta fjármögnun bankans og draga úr umsvifum hans erlendis með sölu eigna og lokun starfsstöðva svo sem í Danmörku og Lúxemborg.

Þá rifjar Sigurður upp að í byrjun september 2008 hafi Þorsteinn Már Baldvinsson, þáverandi stjórnarformaður Glitnis, ákveðið að halda stjórnarfund norður á Akureyri. Þar hafi verið rætt um breytingar á starfseminni í Noregi og ferð til Noregs skipulögð í október.

„Stjórnin var sér þess ekki meðvituð að bankinn myndi fara á hausinn nokkrum vikum seinna. Í byrjun september var ekkert sem sagði stjórninni það að mánuði síðar yrði bankinn kominn á hliðina.“

En hvað veldur því? Var stjórnin svona illa upplýst eða voru menn bara ekki meira varir við aðstæður en þetta?

„Við verðum auðvitað að ganga út frá því að þær upplýsingar sem stjórnendur leggja fyrir stjórn séu réttar og stjórnin verður að vinna út frá því,“ segir Sigurður.

„Það voru gerð regluleg uppgjör á bankanum og þau voru endurskoðuð. Það má heldur ekki gleyma því að Fjármálaeftirlitið var sífellt að gera skoðanir á bankanum og menn þurftu að svara fyrirspurnum frá því um rekstur og eignir bankans. Allir sem sátu þá í stjórn Glitnis, og ég þekki engan stjórnanda innan Glitnis, sem hafði þann sérstaka ásetning að skaða bankann og hluthafa hans eins og haldið hefur verið fram. Mér finnst þess vegna mjög dapurlegt að sjá þegar slitastjórn Glitnis höfðar skaðabótamál gegn óbreyttu starfsfólki og telur það hafa unnið gegn hagsmunum bankans og valdið honum tjóni.“

En er eðlilegt að stjórnin sitji á fundi í september og átti sig þá ekki á því hvað sé stutt í að bankinn fari á hliðina? Voru engin viðvörunarteikn á lofti?

„Það má ekki gleyma því að í millitíðinni fellur Lehman Brothers. Síðan segja menn að auðvitað hefði maður átt að sjá þetta. Stærstu viðskiptavinirnir hafi verið með útblásna efnahagsreikninga og svo framvegis,“ segir Sigurður.

„Það sem lá fyrir var að það var þröngt á alþjóðlegum lánamörkuðum og lán voru dýr. Margir stórir bankar töpuðu miklum peningum við fall Lehman Brothers og lánalínur lokuðust. Þegar lánalínu frá Þýskalandi var lokað fyrir Glitni banka átti hann ekki marga aðra kosti um fjármögnun í flýti en þann að leita til Seðlabanka Íslands. Bankinn brást rangt við lánsbeiðni Glitnis og felldi í raun með þjóðnýtingu Glitnis þann 29. september 2008 endanlega hið veikburða bankakerfi. Þetta segir manni auðvitað eftir á að reksturinn var ekki 100% en það var ekkert sem gaf það til kynna í septemberbyrjun að Glitnir væri við það að falla. Þau ummerki skiluðu sér allavega ekki til stjórnarinnar.“

Finna má ítarlegt viðtal við Sigurð G. í Viðskiptablaðinu.