„Mér finnst líklegt að skaðabóta verði krafist ef ekkert reynist eftir í sjóðum Giftar,“ segir Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður sem vinnur að máli nokkurra umbjóðenda sem krafist hafa þess að Gift verði slitið. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins.

„Hún [skilanefndin] á samkvæmt lögum og reglum að taka til sín eignir sem hún er að vinna við að búa til skil á og útdeila síðan verðmætunum til þeirra sem eiga hagsmuna að gæta. Hún átti ekki að heimila fjárglæframönnum úr Framsóknarflokknum, sem ráða öllu í Samvinnutryggingum, að stunda viðskipti með þessar eignir eftir að hún tók til starfa sem skilanefnd. Það var hins vegar raunin,“ segir Sigurður við Morgunblaðið og vitnar til viðskipta með bréf Kaupþings í lok síðasta árs.

Skilanefnd Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga bíður nú eftir upplýsingum frá stjórn Giftar fjárfestingarfélags, sem stofnað var utan um skuldbindingar eignarhaldsfélagsins á sumarmánuðum í fyrra, til þess að hægt sé að meta hversu mikið kemur í hlut þeirra sem eiga rétt á greiðslu þegar félaginu verður slitið, segir í fréttinni.

Gift var tíundi stærsti hluthafinn í Kaupþingi. Fjármálaeftirlitið tók bankann yfir og gerði þar með eignarhlutinn að engu. Það var stærsta eign Giftar.  Önnur stærsta eign Giftar var hlutur í Exista, sem var kjölfestufjárfestir Kaupþings. Verðmæti Exista hefur lækkað mikið frá áramótum og óvissu gætir um framtíð þess. Gift á einnig hlut í Icelandair Group.

Rúmlega 50 þúsund fyrrverandi tryggingatakar hjá Samvinnutryggingum áttu rétt á greiðslu við slit á hlutafé Samvinnutrygginga. Líklegt er að þeir fái lítið eða ekkert í sinn hlut komi til slita, segir í fréttinni.