„Mér sýnist, eftir að hafa flett blöðum daginn eftir að þeir Magnús [Guðmundsson] og Hreiðar Már [Sigurðsson] voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald, að þá sé þorra þjóðarinnar slétt sama um það hvaða málsmeðferð þessir menn fá yfir höfuð,“ segir Sigurður G. Guðjónsson hrl. í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið. Hann tekur fram að hann sé hvorki lögmaður Magnúsar né Hreiðars Más.

Sigurði er hins vegar mikið í mun að allir menn fái réttláta málsmeðferð. Lögmenn manna sem ekki eigi upp á pallborðið í samfélaginu hverju sinni þurfi yfirleitt að leggja meira á sig til að tryggja réttindi skjólstæðinga sinna. Í þeirri réttargæslu felist ekki að koma skjólstæðingnum undan ábyrgð hafi hann farið á svig við lög heldur að tryggja að hann fái réttláta málsmeðferð, hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða fyrir dómstólum. Eftir að hafa fylgst með fjölmiðlum megi álykta sem svo að fólk telji að Magnús og Hreiðar Már hafi rænt þetta samfélag og séu því réttlausir menn. Undir þetta hafi stjórnarherrarnir kynnt sem sé afleitt.

Kallar það rannsóknargeggjum

„Ég er að reyna að vekja athygli á því sem ég kalla rannsóknargeggjun, sem felst í því að úthrópa tiltekna menn í tíma og ótíma sem glæpamenn og láta að því liggja að allt sem þeir gerðu, hvort heldur var innan banka sem þeir stjórnuðu eða í eigin fyrirtækjum, hafi verið gert í glæpsamlegum tilgangi og til að auðga þá sjálfa. Þessi geggjun byrjaði öll með ráðningu Evu Joly, sem lofaði því í sjónvarpsviðtali hjá Agli Helgasyni fyrir um ári að hún myndi finna peningana sem fluttir hefðu verið frá Íslandi. Tónninn í Evu hefur breyst síðan og nú er hún farin að biðla til hinna brennimerktu um að þeir segi frá sjóðum sínum og fái nokkra syndaflausn í staðinn. Ég hef ekkert á móti því að íslensk rannsóknaryfirvöld fái aðstoð að utan í flóknum sakamálum sem þarf að rannsaka hér. Ég set hins vegar stórt spurningarmerki við framgöngu Evu Joly í fjölmiðlum og þær yfirlýsingar sem hún hefur gefið þar. Auk þess er mér ekki alveg ljóst hvort hún er ráðgjafi sérstaks saksóknara eða ríkisstjórnarinnar, sem á auðvitað ekki að hafa nein afskipti af þeim rannsóknum sem nú eru í gangi."

Joly komin í rekstur einkamála

Sigurður heldur áfram: „Nú síðast lýsti svo Eva Joly því yfir í viðtali við Egil Helgason að málshöfðanir slitastjórnar Glitnis banka í New York hefðu verið gerðar með hennar samþykki. Þannig að hún virðist einnig vera komin í rekstur einkamála fyrir hönd slitastjórnar Glitnis banka. Ég átta mig því ekki alveg á því innan hvaða lagaramma Eva vinnur eða í þágu hverra. Ég þykist þó vita að hún og hirðin í kringum hana, þeir sem upphaflega fluttu hana inn, telji sig vera að vinna þjóðinni gagn. Ég er því ekki sammála og held að íslenskir bankastjórar eigi fátt sammerkt með hinni frönsku, spilltu yfirstétt sem Eva hefur eytt drjúgum tíma í að rannsaka með misjöfnum árangri þó. Rannsóknardómarar sem verða mjög uppteknir af sjálfum sér fara stundum yfir strikið eins og sannaðist á hinum spænska Baltasar, sem vildi rétta yfir gömlum og farlama einræðisherra, en hefur nú verið settur af.“

Sigurður G. Guðjónsson er lögmaður Pálma Haraldssonar sem var einn þeirra sem stefnt var af slitastjórn Glitnis í New York.

________________________________________________

Ítarlegt viðtal er við Sigurð G. Guðjónsson í Viðskiptablaðinu .