Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokks, segir að ummæli sín á fundi Heimssýnar nýverið, um að þingmenn flokksins myndu ekki styðja þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um umsókn um aðild að Evrópusambandinu, hafi verið slitin úr samhengi.

Sigurður Ingi segir í samtali við Viðskiptablaðið að ekki sé hægt að fullyrta neitt um stuðning þingflokksins í ljósi þess að ekki sé búið að leggja tillöguna fram á þingi. „Ég sagði að ég aðhylltist stefnu Framsóknarflokksins sem var samþykkt á flokksþingi um að sækja um aðildarviðræður á grundvelli ákveðinna skilyrða."

Sigurður Ingi segir að þau drög sem utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, hafi kynnt fulltrúum stjórnarandstöðunnar hafi ekki verið nógu metnaðarfull að mati framsóknarmanna. Slík tillaga hefði því ekki fengið stuðning framsóknarmanna.

Á hinn bóginn sé ekki hægt að kveða upp úr um afstöðu þingflokksins á þessari stundu þar sem tillagan í endanlegri mynd hafi ekki verið lögð fram á Alþingi.

„Við höfum ekki séð endanlega tillögu og þar af leiðandi hefur ekki verið fjallað um hana af þingflokknum."

Pressan.is greindi upphaflega frá því í gær að Sigurður Ingi hefði sagt að þingmenn flokksins myndu ekki styðja tillöguna. Sigurður Ingi gagnrýnir fréttina og segir: „Þetta var tilbúin frétt Pressunnar um málið sem síðan hver hefur étið upp eftir öðrum."

Ritstjóri Pressunnar er Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.