1% stýrivaxtalækkun er blaut tuska framan í heimili og fyrirtæki þessa lands,“ skrifar Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður á vef sinn í dag en peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í morgun að lækka stýrivexti um 100 punkta úr 18% í 17%.

„Það verður fróðlegt að sjá hver viðbrögð forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar við þessari vaxtalækkun verða. Ég er viss um að heimilin í landinu og forsvarsmenn atvinnulífsins munu lýsa yfir sömu vonbrigðum með þessa ákvörðun nefndarinnar og ég hef hér gert,“ segir Sigurður Kári á vef sínum.

Hann segir jafnframt að vilji stjórnvöld, ríkisstjórn og Seðlabanki Íslands, beita sér fyrir því að bæta kjör almennings og fyrirtækja sé nauðsynlegt og skynsamlegt að grípa nú þegar til þess ráðs að lækka stýrivexti verulega og grípa til róttækra aðgerða til treysta rekstur fyrirtækjanna og létta undir með þeim. Lækkun stýrivaxta um 1% sé einungis hænuskref í þá átt.

Þá segir Sigurður Kári að veruleg lækkun stýrivaxta nú kæmi sér afar vel fyrir fólk og fyrirtæki í landinu, sem því miður hafi ekki fengið margar jákvæðar fréttir á síðustu dögum.

Sjá nánar á vef Sigurðar Kára.