Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að þó færa megi rök fyrir því að einhverjir kynnu að hafa gengið hratt um gleðinnar dyr í góðæri síðustu ára mætti ekki gleyma því að ríkið og sveitafélögin væru þar ekki undanskilinn.

Þetta sagði Sigurður Kári á Alþingi fyrir stundu en þar er nú til umræðu skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF).

Sigurður Kári sagði að skattgreiðendur og almenningur ætti ekki að bera einn byrðarnar af aukinni skuldasöfnun ríkisins. Hann sagði tvennt í stöðunni, annað hvort þyrfti að hækka skatta eða að ríki og sveitafélög þyrftu að draga saman seglin.

Þá sagði hann að ekki væri almenning leggjandi að skattar yrðu hækkaðir nú þar sem nóg væru um aðra erfiðleika. Því væri augljóst að ríkið þyrfti að skera niður í ríkisútgjöldum.

Sigurður Kári sagði ríkið þyrfti að endurskoða þau verkefni sem nú lægju fyrir. Þá þyrfti að endurskoða launakjör og hlunnindi opinberra starfsmanna, hvort sem um væri að ræða starfsmenn í stjórnsýslunni eða opinberra fyrirtækja.