Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, hefur ákveðið að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem haldið verður dagana 13. og 14. mars næstkomandi vegna komandi Alþingiskosninga.

Sigurður Kári sækist eftir forustusæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og óskar eftir stuðningi í 2.-3. sæti í prófkjörinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá framboði Sigurðar Kára.

„Með framboði sínu vill Sigurður Kári taka með kröftugum hætti þátt í enduruppbyggingu íslensks samfélags á öllum sviðum,“ segir í tilkynningunni.

„Við þá uppbyggingu telur Sigurður Kári mestu skipta að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar verði til framtíðar og að hagsmunir heimilanna verði hafðir að leiðarljósi í þeirri uppbyggingu, ekki síst þannig að sköttum og álögum á fólkið í landinu verði haldið í algjöru lágmarki.“

Þá leggur Sigurður Kári afar mikla áherslu á uppbyggingu atvinnulífsins og fjármálakerfisins, samkvæmt tilkynningunni.

„Kraftmikil atvinnusköpun, hvort sem er á þeim grunni sem fyrir er eða á grundvelli nýsköpunar, er forsenda þess að hægt verði að berjast gegn atvinnuleysi í landinu. Endurreisn bankakerfisins gegnir þar einnig lykilhlutverki. Ennfremur leggur Sigurður Kári áherslu á ábyrga stjórn efnahagsmála og að mörkuð verði framtíðarstefna í peninga- og gjaldmiðilsmálum á Íslandi,“ segir í tilkynningunni en Sigurður Kári telur að reynsla sín, þekking og hugmyndir muni reynast vel við þá enduruppbyggingu.

Sigurður Kári Kristjánsson er fæddur 9. maí 1973 og er því 35 ára gamall. Hann er lögfræðingur að mennt og útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1998. Hann stundaði jafnframt nám í lögfræði, einkum Evrópurétti, við Kaþólska háskólann í Leuven í Belgíu veturinn 1997.

Frá útskrift starfaði Sigurður Kári sem lögmaður á lögmannsstofunni Lex þar til hann tók sæti á Alþingi auk þess sem hann var stundakennari við Iðnskólann í Reykjavík 2001-2002. Sigurður Kári aflaði sér málflutningsréttinda fyrir héraðsdómi árið 1999.

Sigurður Kári var kjörinn á Alþingi sem þingmaður Reykvíkinga árið 2003 og hefur átt sæti í menntamálanefnd Alþingis frá árinu 2003 og verið formaður menntamálanefndar frá 2005-2009.

Þá hefur hann átt sæti í allsherjarnefnd Alþingis frá 2003. Jafnframt sat Sigurður Kári í iðnaðarnefnd Alþingis á tímabilinu 2003-2007 og átti sæti í sérnefnd Alþingis um stjórnarskrármál 2004-2007 og frá árinu 2009.

Sigurður Kári hefur jafnframt ritað fjölda greina og pistla í blöð, tímarit og á heimasíður sínar, www.sigurdurkari.is og www.sigurdurkari.blog.is .

Eiginkona Sigurðar Kára er Birna Bragadóttir, BA í félagsfræði, verkefnastjóri hjá Icelandair og MBA-nemi við Háskólann í Reykjavík. Fósturbörn hans eru tvö, Sindri 13 ára og Salka 5 ára.

Þá er tekið fram að Sigurður Kári er hvorki hluthafi í né situr í stjórnum fyrirtækja.