Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur ákveðið að ráða Sigurð Nordal sem framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá og með 1. september næstkomandi að því er segir í tilkynningu.

Sigurður Nordal er 43 ára, hagfræðingur að mennt með meistaragráðu frá Columbia háskóla í New York. Undanfarin 16 ár hefur Sigurður gegnt ýmsum ábyrgðar- og stjórnunarstörfum hjá bönkum og fjármálafyrirtækjum, nú síðast sem framkvæmdastjóri hjá Exista. Samhliða hefur Sigurður sinnt störfum á sviði menningarmála og m.a. setið í stjórn Listaháskóla Íslands frá upphafi.

Sigurður er kvæntur Áslaugu Dóru Eyjólfsdóttur og eiga þau þrjú börn. Þröstur Ólafsson, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra hljómsveitarinnar síðastliðin 11 ár, mun starfa með nýjum framkvæmdastjóra til loka október, en lætur þá af störfum fyrir aldurs sakir.