Brú Venture Capital hf., dótturfélag Straums Fjárfestingarbanka hf., hefur samið við Dr. Gísla Hjálmtýsson og Sigurð Ingiberg Björnsson um að þeir taki við framkvæmdastjórn og rekstri Brúar og er Dr. Gísli framkvæmdastjóri félagsins frá og með 1. október.

Í upphafi ársins keypti Brú Venture Capital allar eignir Straums Fjárfestingarbanka í vaxtarfyrirtækjum og í vor keypti félagið eignir af Hámarki auk þess sem Lífeyrssjóður Norðurlands varð hluthafi í Brú.

"Stjórn Brúar í samstarfi við Fyrirtækjasvið Straums hefur unnið að eflingu félagsins með það að markmiði að Brú verði leiðandi fjárfestir í vaxtarfyrirtækjum á Íslandi. Ráðning nýrra stjórnenda er hluti af því ferli og við erum því hæstánægðir með þennan ráðhag. Við höfum átt farsælt samstarf við þá Dr. Gísla og Sigurð í fyrri verkefnum og þekking þeirra og reynsla mun vega þungt í þeim væntingum sem við höfum um framtíð félagsins," segir Úlfar Steindórsson stjórnarformaður Brú Venture Capital.

Brú Venture Capital er í viðræðum við fagfjárfesta um frekari samvinnu á sviði vaxtarfjárfestinga. Félagið er þegar í samstarfi við nokkra Lífeyrissjóði um Alþjóðasamlag þeirra, svo og við Nýsköpunarsjóð og Líftæknisjóðinn.

"Við teljum vaxtarfjárfestingar á Íslandi spennandi ef rétt er staðið að málum enda mörg dæmi þess að frumköðlar og fjárfestar hafi hagnast vel. Styrkur Brú Venture Capital liggur bæði í sterkum bakhjörlum og þeirri miklu reynslu sem safnast hefur að fyrirtækinu. Við sjáum góð tækifæri fyrir fjárfesta og kröftuga frumkvöðla," segir Dr. Gísli Hjálmtýsson í tilkynningu frá félaginu.

Gísli Hjálmtýsson Ph.D. er deildarsjóri Tölvunarfræðideildar hjá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur áralanga reynsla af nýsköpun og rannsóknum. Hann hefur stofnað, fjárfest og rekið vaxtafyrirtæki á Íslandi og í Bandaríkjunum og starfað þar sem áhættufjárfestir.

Sigurður Ingibergur Björnsson MBA, hefur um 20 ára reynslu í stjórnun hjá íslenskum sem erlendum félögum, við fyrirtækjaþróun, fjárfestingar, yfirtökur og samruna fyrirtækja.