Claudio Albrecht tekur í dag við sem forstjóri Actavis Group. Sigurður Óli Ólafsson, sem hefur verið forstjóri, hættir hjá fyrirtækinu.

Í tilkynningu frá Actavis segir að Claudio Albrecht eigi að baki meira en 20 ár í samheitalyfjageiranum, fyrst hjá Sandoz frá 1987, þar sem hann gegndi m.a. stöðu framkvæmdastjóra í Hollandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Árið 2000 varð hann forstjóri Ratiopharm á heimsvísu. „Tekjur félagsins tvöfölduðust undir hans stjórn og Ratiopharm varð þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Árið 2008 stofnaði hann ráðgjafarfyrirtækið Cometh, sem sérhæfir sig í stefnumótunarráðgjöf til lyfjafyrirtækja. Claudio Albrecht er 51 árs, austurrískur ríkisborgari með doktorsgráðu í lögfræði," segir í tilkynningunni.

Svo segir um fráfarandi forstjóra: „Sigurður Óli Ólafsson stýrði Actavis gegnum miklar umbreytingar á mikilvægum lykilmörkuðum, m.a. í Bandaríkjunum, í erfiðu ytra umhverfi. Reksturinn í þessum löndum er nú í góðu jafnvægi. Sigurður Óli hættir störfum hjá Actavis eftir sjö ára farsælan feril í yfirstjórn á tíma þar sem félagið stækkaði margfalt og komst í hóp helstu samheitalyfjafyrirtækja heims."