Sigurður Ólafsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Varðar-Íslandstryggingar hf. Hann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og lauk MBA prófi í rekstrarhagfræði frá Rotterdam School of Management árið 1990.

Sigurður var áður rekstrarstjóri VÍS eignarhaldsfélags og þar áður starfsmannastjóri VÍS, starfsmannastjóri Nýherja og deildarstjóri hjá Flugleiðum.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að Vörður-Íslandstrygging varð til árið 2005 við sameiningu Varðar Vátryggingafélags hf. og Íslandstryggingar hf. Starfsmenn félagsins eru 30 talsins á Akureyri og í Reykjavík auk umboðsmanna víða um land.

Vörður-Íslandstrygging annast alhliða vátryggingaþjónustu við einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Félagið má rekja allt aftur til Vélbátasamtryggingar Eyjafjarðar, sem stofnuð var árið 1926 og stofnunar Íslandstryggingar árið 2002.