Sigurður Valtýsson hefur verið ráðinn annar tveggja forstjóra Exista og mun starfa við hlið Erlendar Hjaltasonar núverandi forstjóra, segir í tilkynningu.

Miklar breytingar eru framundan í starfsemi Exista og hyggst félagið sækja fram af miklum krafti á nýja markaði á næstu misserum. Stefnt er að skráningu félagsins í Kauphöll Íslands fyrir lok árs 2006 og skrifstofa félagsins í London mun stækka á næstunni.

Sigurður Valtýsson hóf störf hjá MP Fjárfestingarbanka árið 2000 sem forstöðumaður fyrirtækjaþjónustu og varð framkvæmdastjóri fyrirtækisins árið 2003. Áður starfaði Sigurður hjá Tryggingamiðstöðinni sem deildarstjóri fjármáladeildar.

Hann útskrifaðist sem hagfræðingur frá Columbia University í New York árið 1991 og hefur jafnframt hlotið löggildingu í verðbréfamiðlun. Sigurður hefur setið í stjórn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja frá árinu 2003.