Það hjálpar þjóðum lítið á HM í knattspyrnu að vera með traustan og góðan efnahag, samkvæmt skýrslu sem Price Waterhouse Coopers (PWC) í Bretlandi hefur gefið út og breska ríkisútvarpið BBC vitnar til á vefsvæði sínu.

Út frá hagtölum og efnahagslegum viðmiðum er líklegt að tiltölulega fátækt ríki í Suður-Ameríku eða sunnaverðri Evrópu verði heimsmeistarar.

„Þetta segir manni kannski það, öðru fremur, að hæfileikar í fótbolta geta alveg eins orðið til í fátækrahverfum eins og á dýrum knattspyrnuvöllum,“ segir John Hackworth, yfirmaður greiningardeildar PWC í Bretlandi, í viðtali við BBC.

HM í Suður-Afríku hefst 11. júní nk. og er spennan heldur betur farin að magnast upp fyrir keppnina. Samkvæmt skýrslu PWC og ályktunum sem dregnar eru í skýrslunni þá getur England sætt sig við að komast í átta liða úrslit. Út frá efnahagssögu sigurvegara keppninnar frá upphafi þá er líklegast, samkvæmt skýrslu PWC, að Brasilía verði heimsmeistari. „Þrátt fyrir að landsframleiðsla á mann þar í landi sé aðeins einn fjórði af því sem hún er í Bretlandi,“ segir í frétt BBC.

PWC segir efnahagsstöðu þeirra þjóða sem nú taka þátt í keppninni bendi til þess að Afríkuþjóðirnar sem taka þátt eigi að geta staðið fyrir sínu. Sérstaklega muni heimaþjóðin Suður-Afríku standa sig mun betur en styrkleikalisti FIFA gefur til kynna en Suður-Afríka er þar í 90.sæti, á svipuðum slóðum og Ísland hefur stundum verið.

Heimsmeistar í dag eru Ítalir en þeir unnu keppnina árið 2006 í Þýskalandi eftir dramatískan úrslitaleik við Frakka. Ítalir hafa oft staðið betur efnahagslega heldur en í dag. Samkvæmt kenningu PWC ætti það að hjálpa þeim að verja titilinn.