Í gær var byrjað að frysta síld til manneldis að nýju en ekki hefur verið unnin síld til manneldis í Vinnslustöðinni síðan sníkjudýrið Ichthyophonus hoferi uppgötvaðist í íslensku síldinni.

Kap VE kom með um 700 tonn að landi en skipið var við veiðar í Breiðafirði. Síldin er flökuð og flokkuð þannig að sýkta síldin er týnd úr og send í bræðslu.

Frá þessu er skýrt á vef Frétta í Vestmannaeyjum.

Veiða má síld til 19. desember. Hitt skip Vinnslustöðvarinnar, Sighvatur Bjarnason VE, hefur ekki verið við veiðar undanfarna daga.

„Sighvatur hefur verið bilaður og hefur verið til viðgerða í Hafnarfirði. Við vonumst til að hann geti haldið til veiða annað kvöld og nái einum farmi áður en lokað verður fyrir veiðar. Við klárum líklega að landa úr Kap á morgun en á þessari stundu er ekki víst hvort Kapin fari aftur til veiða fyrir jól," sagði Sigurjón Gísli Jónsson, framleiðslustjóri VSV í samtali við Fréttir.