Hagnaður Síldarvinnslunnar í Neskaupstað nam 5,6 milljörðum króna á síðasta ári. Þetta er um 1,4 milljörðum krónum minna en árið 2012.

Fram kemur á vef Síldarvinnslunnar að rekstrartekjur Síldarvinnslunnar námu 23,6 milljörðum króna borið saman við 24 milljarða árið 2012 og rekstrargjöld 16,2 milljörðum króna samanborið við 14,3 milljarða ári fyrr. Þá nam rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, skatta og gjöld (EBITDA) 7,4 milljörðum króna í fyrra borið saman við 9,6 milljarða árið 2012.

Þá segir í tilkynningunni að fjármagnsliðir voru jákvæðir um 168 milljónir króna.

Hagnaður samstæðu Síldarvinnslunnar fyrir reiknaða skatta nam 6,9 milljörðum króna í fyrra borið saman við 8,6 milljarða árið 2012.

Fram kemur í uppgjöri Síldarvinnslunnar að útgerð félagsins gekk vel á árinu.