Síldarvinnslan á Neskaupsstaðð hefur samið um kaup á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum. Kaupverð er trúnaðarmál.

Bergur-Huginn gerir út tvo nýlega togara, Bergey VE-544 og Vestmannaey VE-444. og hjá félaginu starfa 35 manns.  Bergur-Huginn rekur ekki landvinnslu og hefur stærsti hluti aflans farið á markað erlendis.

Fram kemur í tilkynningu að eftir kaupin eigi Síldarvinnslan fjögur skip til bolfiskveiða. Hins vegar sé ljóst að þeim verði fækkað um eitt í hagræðingarskyni. Þá mun reksturinn allur verða endurskipulagður. Áfram verður gert út frá Vestmanneyjum og Neskaupstað.

Milljarðaskuldir fylgja með

Haft er eftir Gunnþóri Ingvassyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar, að við kaupin verði teknar yfir umtalsverðar skuldir. Með hagræðingu verði þær viðráðanlegar.

Skuldir Bergs-Hugins námu tæpum 7,3 milljörðum króna í lok síðasta árs og var eigið fé útgerðarinnar neikvætt um 2,8 milljarða króna. Á sama tíma nam verðmæti eigna tæpum 4,5 milljörðum króna.

Bergur-Huginn verður rekið áfram sem sjálfstætt félag, að sögn Gunnþórs.

Kaupin eru gerð með fyrirvara Samkeppniseftirlitsins.