Gengi 19 af 20 félögum á aðalmarkaði Kauphallarinnar lækkaði í dag. Úrvalsvísitala íslenska hlutabréfamarkaðarins lækkaði um tæp 3% í viðskiptum dagsins og hefur nú lækkað um tæp 10% frá áramótum.

Gengi Síldarvinnslunnar lækkaði mest allra, um 5,2% í rúmlega 100 milljóna viðskiptum. Eins og kom fram í tilkynningu Síldarvinnslunnar í morgun er Úkraína eitt mikilvægasta viðskiptaland félagsins og á félagið útistandandi viðskiptakröfur upp á 1,14 milljarða króna í landinu. Félagið hafi framleitt töluvert af loðnu sem selja á inn á markað í Úkraínu og er fyrirtækið með í birgðum vörur ætlaðar inn á þann markað. Þess má geta að á síðustu árum hefur Úkraína verið með um þriðjung af útflutningi SVN á frosnum uppsjávarafurðum, en hlutfallið var enn hærra á árunum 2019-2020 þegar loðnubrestur var.

Upplýsingatæknifyrirtækið Origo lækkaði um 5% í um 13 milljóna viðskiptum. Icelandair lækkaði um 4,7% í 350 milljón króna viðskiptum. Eina félagið sem lækkaði ekki á aðalmarkaði var Íslandsbanki, en gengi bankans hækkaði um 0,5% í 100 milljóna viðskiptum.

Mest velta var með bréf Marels, en viðskipti með bréfin námu 800 milljónum króna og stendur gengi félagsins í 718 krónum á hlut. Gengi félagsins hefur lækkað um 18,5% frá áramótum.

Viðskipti með bréf Kviku banka námu 650 milljónum króna og lækkaði gengi félagsins um rúm 2,5%. Eimskip lækkaði um 3,8% í 450 milljón króna viðskiptum. Heildarvelta á aðalmarkaði nam 3,7 milljörðum króna.

Á First North markaðnum lækkaði gengi flugfélagsins Play um 2,9% í 10 milljóna viðskiptum.