Hæstiréttur sýknaði í dag Síldarvinnsluna hf. og Q44 ehf. af kröfu Vestmannaeyjabæjar um að samningur um kaup Síldarvinnslunnar á öllum hlutabréfum í útgerðarfélaginu Bergi-Hugin ehf. yrði ógiltur. Q44 var seljandi bréfanna, en félagið var í eigu fjölskyldu Magnúsar Kristinssonar.

Í rökstuðningi Hæstaréttar segir að ákvæði laga um forkaupsrétt sveitarfélaga á fiskiskipum taki aðeins til þess ef skip er selt.

Í dómnum segir orðrétt:

„Kaupsamningur áfrýjenda sem mál þetta varðar var ekki gerður um fiskiskip, heldur öll hlutabréf í Bergi-Hugin ehf. Forkaupsrétturinn, sem veittur er með þessu lagaákvæði, horfir til takmörkunar á friðhelgi eignarréttar sem varin er af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Girðir það þegar fyrir að ákvæðinu verði gefin rýmri merking með skýringu en felst í bókstaflegum skilningi orða þess. Horfir þetta og til verulegra takmarkana á því að efnisregla ákvæðisins verði með lögjöfnun færð yfir á önnur atvik en þau sem eiga beinlínis undir það. Að því verður einnig að gæta að í 6. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 er að finna reglur um frelsi til að framselja aflahlutdeild skips og er þar ekki mælt fyrir um forkaupsrétt sveitarfélags að slíkum verðmætum eins og um ræðir í 3. mgr. sömu lagagreinar. Þetta stendur því í vegi að reglu síðastnefndrar málsgreinar um forkaupsrétt verði fyrir lögjöfnun beitt um aflahlutdeild. Eins og áður kom fram var bókfært verðmæti skipa Bergs-Hugins ehf. aðeins rúmur fimmtungur heildareigna félagsins samkvæmt ársreikningi, sem síðast hafði verið gerður fyrir það áður en áfrýjendur gerðu kaupsamninginn um alla hluti í því, en andvirði varanlegra fiskveiðiheimilda á hinn bóginn meira en ⅔ af verðmæti heildareigna félagsins. Þannig geta ekki talist leiddar nokkrar líkur að því að kaupsamningur áfrýjenda hafi í reynd miðað að því sem meginatriði að koma fram yfirfærslu eignarréttar að fiskiskipum Bergs-Hugins ehf., en klæða þau viðskipti í annan búning. Ákvæðum 3. mgr., sbr. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 verður því ekki beitt á þann hátt að þau verði látin taka til kaupa áfrýjenda. Brestur þannig lagastoð til að verða við kröfu stefnda og verða áfrýjendur því sýknaðir af henni.“