Góð veiði hefur verið á norsk-íslenskri síld  fyrir austan síðustu daga. Stutt er á miðin og skipin hafa verið fljót að ná sínum skömmtum. Fyrstur til að landa var Börkur NK sem kom með tæp 900 tonn seint í síðustu viku. Margrét EA var á leið á miðin í gær í sínum öðrum túr. Hún landaði 1.150 tonnum af síld á Neskaupstað sl. laugardag.

Á þessu almanaksári er íslenskum skipum sem hafa aflamark í norsk-íslenskri síld heimilt samkvæmt reglugerð að veiða samtals 76.264 tonn sem er tæpum 26.000 tonnum minna aflamark en á árinu 2019 þegar það var 102.174 tonn. Hverju skipi er heimilt að veiða allt að 10% umfram aflamark á árinu og dregst sá umframafli frá aflamarki þess á árinu 2021.

„Við erum bara á leið á miðin og mér líst vel á þetta,“ sagði Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri á Margréti. Skipið er sem kunnugt er gert út af Samherja en leggur upp aflann hjá Síldarvinnslunni.

1.160 tonn í tveimur holum

Skipstjóri í fyrsta túr Margrétar á þessari síldarvertíð var Birkir Hreinsson. Aflinn fékkst á átta og hálfri klukkustund norðarlega og ofarlega á Glettinganesgrunni. Birkir sagði að þarna hefði verið mikið að sjá af síld. Síldin var líka í góðu ásigkomulagi, 420 gramma meðalþyngd og átulaus. Skipið var einungis þrjá tíma á leiðinni land með aflann og hráefnið gat því vart verið ferskara.  Fyrr hafði Börkur NK landað tæpum 900 tonnum á Neskaupstað.

„Það var ágætis túr hjá þeim. Þeir fengu um 1.160 tonn í tveimur holum og það er búið að vera gott hérna hjá skipunum sem halda sig hérna og góð veiði. Veiðin hefur að mestu verið í Héraðsflóa og Seyðisfjarðardýpinu. Við erum að koma á miðin núna og mér líst bara vel á þetta. Það hlýtur að vera einhver fiskur hérna,“ sagði Guðmundur.

Öruggt að það verði loðnuveiði

Hann sagði að það hefðu verið góðar lóðningar hjá skipinu og þau hefðu verið að hífa í gærmorgun. Flestir séu farnir heim til löndunar og skipin hafi verið með í kringum 600-1.000 tonn. Einungis Ásgrímur Halldórsson var á miðunum fyrir utan Margréti.

Guðmundur segir að veiðin hafi hafist með ágætum krafti líka í fyrra. Síldin sem er veiðast núna sé á bilinu 350-420 grömm eða eitthvað örlítið smærri en í fyrra. Þetta sé fínasta síld og mjög gott hráefni.

„Það er verið að spá einhverjum kalda hérna núna. Við eigum um 7.000 tonn eftir af okkar kvóta þannig að þetta verða kannski 6-7 túrar til viðbótar. Þetta er fín búbót og þegar þessu lýkur eigum við eftir eitthvað af Íslandssíld en það er ekki mikið, hugsanlega ekki nema einn túr. Svo er öruggt að það verði loðnuveiði. Það sást það mikið af ungloðnu í leiðangrinum í fyrra að það hlýtur að koma fram í veiðinni núna. Það kemur ekkert annað til,“ segir Guðmundur.