Fjórtán milljarða hlutafjársöfnun hlutafjáröflun Silicor Materials fyrir sólarkísilverksmiðju á Grundatanga er í höfn. Erlendir hluthafar leggja til meirihluta fjár, en íslenskir lífeyrissjóðir og fagfjárfestar hafa skráð sig fyrir tæplega 6 milljarða framlagi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Þetta er mikilvægur áfangi og við erum ánægð með þann áhuga á verkefninu sem fjárfestar hafa sýnt. Þessi áfangi kemur í kjölfar þess að við gerðum samninga um byggingu verksmiðjunnar og kaup á vélbúnaði hennar,“ segir Terry Jester, forstjóri og stjórnarformaður Silicor Materials.

Um er að ræða fyrri hluta fjármögnunar en áætlað er að seinni hluta ljúki um mitt ár 2016. Verksmiðjan mun framleiða sólarkísil fyrir sólarhlöð með umhverfisvænni framleiðslutækni. Áætlað útflutningsverðmæti er 50 til 60 milljarðar króna á ári.

Í tilkynningunni kemur fram að Silicor hafi gengið frá samningum við Sunnuvelli, félag í eigu lífeyrissjóða og fagfjárfesta, þess efnis að félagið komi að uppbyggingu fyrirhugaðrar sílarkísilverksmiðju á Grundartanga með tæplega sex milljarða króna eiginfjárframlagi. Þá komi hópur erlendra fjárfesta, þ.á.m. Hudson Clean Energy Partners og SMS Siemag, með tæplega átta milljarða króna eiginfjárframlag.

Heildarkostnaður við að reisa verksmiðjuna er áætlaður um 120 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að lánsfjármögnun undir forystu Þróunarbanka Þýskalands KfW standi að baki um 60% af heildarkostnaði, en fyrirtækið gerir jafnframt ráð fyrir að ráðast í seinni umferð hlutafjársöfnunar samhliða frágangi lánasamninga. Áætlað er að seinni fjármögnuninni ljúki um mitt ár 2016.