Sprenging hefur orðið í sölu á sótthreinsanlegum lyklaborðum og músum hjá Origo í kjölfar útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Hrönn V. Runólfsdóttir, gæða- og umbótastjóri hjá Origo, segir aðallega fyrirtæki og stofnanir kaupa slíkar vörur, en einnig séu einstaklingar meðal kaupenda.

„Sótthreinsanlegu lyklaborðin og mýs hafa rokið út en það er ennþá eitthvað til af þeim. Það er mjög mikið haft samband við okkur út af þessum vörum. Þær eru með silíkon-hulsu sem gera öll þrif auðveld. Það getur engin vökvi farið á milli takkanna á lyklaborðinu,“ segir Hrönn.

Hún segir að hægt sé að slökkva á lyklaborðinu á meðan það er þrifið og sótthreinsað.

„Þetta eru mjög góðar vörur fyrir hvern sem er en þetta er sérlega gott fyrir fyrirtæki og stofnanir þar sem margir eru um hverja starfsstöð og hreinlæti skiptir lykilmáli.“