Samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu kölluðu eftir því fyrir nokkrum árum að stofnað yrði sérstakt ráðuneyti um ferðaþjónustuna og vöxtur hennar seinustu ár og mikilvægi fyrir þjóðarbúið hefur sannarlega veitt slíkum sjónarmiðum aukinn hljómgrunn. Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, hugnast þó ekki slíkar hugmyndir.

„Eitt af mínum fyrstu verkum í embætti var að stofna sérstaka skrifstofu ferðamála innan ráðuneytisins. Ég hef forgangsraðað fjármunum í þessum málaflokki til gagnaöflunar og rannsókna. Nú starfrækjum við nokkuð sterka skrifstofu í ráðuneytinu, með sex starfsmönnum. Einnig höfum við eflt Ferðamálastofu þannig að hún á að vera betur í stakk búin til að sinna sínum verkefnum en áður. Varðandi hugmyndir um sérstakt ráðuneyti segi ég þetta: Stjórnkerfið á Íslandi vinnur í alltof miklum sílóum, sem gengur ekki upp fyrir atvinnugrein á borð við ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan fer um alla kima samfélagsins, flýtur á milli ráðuneyta ef svo má segja, og það breytist ekkert þó að stofnað verði sérstakt ráðuneyti ferðamála. Það skiptir máli að við rekum sterka skrifstofu ferðamála sem getur unnið með stjórnkerfinu öllu. Fjöldi opinberra starfsmanna sem vinna í tengslum við tiltekna atvinnugrein er enginn sérstakur mælikvarði á gæði vinnunnar sem þar fer fram. Það er ótrúlega mikið að gerast og ég er stolt af þeirri vinnu sem fer fram á vegum ráðuneytisins, Ferðamálastofu og Stjórnstöðvar ferðamála,“ segir Þórdís Kolbrún.

Höfum við vanrækt innviðina, vegakerfið, aðstöðu á ferðamannastöðum o.s.frv., á meðan flugvélafarmar fullir af gjaldeyri hafa streymt hingað án afláts?

„Þrátt fyrir það sem halda mætti af allri umræðunni um vegakerfið höfum við sett heilmikla innspýtingu í það undanfarin misseri, sérstaklega varðandi viðhaldsfjármagn og þar hefur verið litið sérstaklega til áhrifa ferðamanna. Allir sem nota vegina finna fyrir þessu. Við verðum hins vegar að horfast í augu við að fyrir áratug var dregið verulega úr framlögum til vegakerfisins, af eðlilegum orsökum, og við stöndum því enn í mikilli skuld við það kerfi og þá innviði. Ofan á það bætast við allir þessir fjölmörgu nýju gestir sem hingað koma og nota vegina. Þrátt fyrir áðurnefnda innspýtingu þurfum við að mínu viti að svara spurningunni: Hvernig lítur Samgöngukerfið 2.0 út? Og með því meina ég: Hversu hratt ætlum við að byggja það upp? Hvernig ætlum við að fjármagna það? Auðvitað koma vegtollar til álita, en þeirri spurningu er einfaldlega ósvarað hvernig fjármagna eigi samgöngukerfið til framtíðar og um það þarf að ríkja almenn sátt í þjóðfélaginu. Við munum sjá breytingar á fjármögnun, þótt ekki væri nema vegna orkuskipta.”

Hvaða vinna er í gangi til að bregðast við þessum ósvöruðu spurningum? „Áðurefnd innspýting er hluti þess, auk þess gaf fjármálaráðuneytið út skýrslu í ágúst um endurskoðun skattlagningar ökutækja og eldsneytis, við erum með samgönguáætlun til meðferðar á Alþingi og sjáum til hvernig hún verður afgreidd. Þá stendur eftir sá möguleiki að taka afstöðu til stórra framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu og mögulega annarra framkvæmda og fjármögnun þeirra með öðrum hætti en í gegnum samgönguáætlun. Það er engin ein leið í þeim efnum, en ég hef lengi verið þeirrar skoðunar – og það kann að tengjast því að ég er uppalin á Akranesi og þekki vart annað en að nota Hvalfjarðargöngin – að veggjöld séu raunhæfur kostur. Við þurfum að gæta þess að taka ekki ákvarðanir sem auka verðbólgu og heildarálögur á fólk eiga ekki að aukast við þessa endurskoðun. En við þurfum að útfæra þessar hugmyndir og þá þurfum við að fá fleiri til liðs við þennan valkost. Það gilda einfaldlega önnur lögmál á landsbyggðinni þar sem færri aka um en á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. En við erum ein þjóð í stóru landi og þurfum að huga vel að þessu öllu saman.“

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar . Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst [email protected] .