Símafélagið hefur samið við Nokia Networks um 100 gigabit (100.000 Mbit) uppfærslu á fjarskiptaneti sínu, fyrst íslenskra fjarskiptafélaga. Um tíföldun á fyrri afkastagetu er að ræða. Uppfærsla þessi verður framkvæmd í nokkrum áföngum á næstu 18 mánuðum og lauk fyrsta áfanga í byrjun þessa mánaðar þar sem fjarskiptanet á lykilstöðum í Reykjavík var uppfært. Eftirspurn eftir gagnaflutningi hefur aukist stórlega á undanförnum árum og má gera ráð fyrir aukinni eftirspurn þegar fram í sækir.

,,Símafélagið hefur á undanförnum árum byggt upp fjarskiptanet sem teygir anga sína um allt Ísland sem og til Evrópu. Um þetta net veitir félagið fjölda innlendra og erlendra fyrirtækja þjónustu á borð við leigulínu-, víðnets-, Internet-, síma- og sjónvarpsþjónustu.  Samhliða örum vexti undanfarin ár þá hefur gagnamagn og umferð aukist hratt og samningurinn við Nokia Networks um uppfærslu því félaginu mikilvægur til þess að styðja við áframhaldandi framþróun á þessu sviði," segir Ingvar Bjarnason, yfirmaður tæknisviðs hjá Símafélaginu.