Mistök hjá símafyrirtæki ollu því að sími manns sem ekki var tengdur rannsókn embættis sérstaks saksóknara á Al Thani-málinu var hleraður og hún send tæknideild lögreglunnar. Fram kom á blaðamannafundi lögmannanna Gests Jónssonar og Ragnars H. Hall, verjenda þeirra Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar, á mánudag að þegar Ólafur fór á starfsstöð sérstaks saksóknara til að hlusta á upptökur af símtölum hans sem tekin höfðu verið upp þá hafi verið spilaðar fyrir hann upptöku af símtölum alnafna hans sem bjó úti á landi.

Ólafur sagði sjálfur eftir að dómari ákvað að fresta aðalmeðferð í Al Thani-málinu í morgun að hlerunarmálið væri dæmi um slæleg vinnubrögð hjá embættinu við rannsókn málsins.

Í tilkynningu frá Ólafi Haukssyni, sérstökum saksóknara, í tengslum við hlerunina segir m.a. almennt að embætti sérstaks saksóknara sjái ekki um að framkvæma hlerun í síma heldur tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við fulltrúa símafélaganna að fengnum úrskurði dómara. Rannsakendur málsins hjá sérstökum saksóknara hafi fengið upptökur af símtölunum til skoðunnar. Upptökur símtala sem ekki snerta málið eru lagðar til hliðar og verða ekki hluti málsgagna. Einungis þau símtöl sem varða málið eru notuð við málshöfðun.

„Öll símtöl sem embætti sérstaks saksóknara fékk til skoðunar frá tæknideild vegna Al-Thani-málsins voru merkt þeim símanúmerum sem voru til skoðunar og úrskurðir heimiluðu hlustun á,“ segir í tilkynningunni og áréttað að ofangreind mistök símafyrirtækisins hafi ekki haft áhrif Al-Thani-málið. Símtölin séu ekki meðal málsgagna og því hvorki haft áhrif á málsmeðferðina né málshöfðunina