Símatún ehf. hefur keypt yfir 66% heildarhlutafjár í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. Símatún mun á næstunni gera öllum hluthöfum Hraðfrystistöðvarinnar tilboð þar sem boðist verður til að innleysa hluti þeirra á genginu 3,68. Símatún er í jafnri eigu Fjárfestingarfélags sparisjóðanna, Vátryggingafélags Íslands hf. og Fræs ehf., sem er félag í eigu Þórshafnarhrepps.

Fræ ehf. og Þórshafnarhreppur hafa samþykkt að selja alla eignarhluti sína og Svalbarðshreppur megin hluta sinn í Hraðfrystistöð Þórshafnar til Símatúns, á genginu 3,68 fyrir hvern hlut. Fræ selur 36,82%, Svalbarðshreppur selur 26,9% og Þórshafnarhreppur selur 2,97%.

Símatún mun á næstunni gera öllum hluthöfum Hraðfrystistöðvar Þórshafnar hf. tilboð um að kaupa hluti þeirra á genginu 3,68 sem er hæsta verð sem aðilar hafa greitt í viðskiptum sínum með bréf í Hraðfrystistöðinni á síðustu sex mánuðum og beita sér samhliða fyrir því að innlausnarréttur gagnvart hluthöfum verði nýttur. Stefnt er að því að afskrá hlutabréf Hraðfrystistöðvarinnar úr Kauphöll Íslands.