Stjórnendur Símans segja úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála um alvarleg brot á samkeppnislögum vonbrigði og Samkeppniseftirlitið fordæma eðlilega háttsemi á samkeppnismarkaði til að vernda keppinauta. Síminn segir nefdina hafa virt að vettugi óháð mat erlendra prófessora í samkeppnisrétti. Sérfræðingarnir hafi talið aðferðafræði Samkeppniseftirlitsins á skjön við þekkta framkvæmd við beitingu verðþrýstings. Annað álit Símans um málið liggur fyrir.

Síminn segir Samkeppniseftilrlitið hafa farið offari við ákvörðun sektarfjárhæðar og ætlar að skjóta úrskurðinum til dómsstóla.

Yfirlýsing Símans

„Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í svokölluðu verðþrýstingsmáli, sem á rætur sínar að rekja til ársins 2001, er veruleg vonbrigði fyrir Símann, einkum í ljósi þess að svo virðist sem við úrskurðinn hafi nefndin virt að vettugi óháð mat virtra prófessora í samkeppnisrétti við lögfræðideild Kings’ Háskóla  í London og Bristol Háskólans.  Síminn kærði ákvörðun Samkeppniseftirlits til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og fékk  fremstu sérfræðinga í samkeppnisrétti í Evrópu, þær Alison Jones og Brendu Sufrin, til þess að gefa óháð álit á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins .  Niðurstaða þeirra er sú að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hafi verið haldin verulegum ágöllum og fái ekki staðist ef beitt er aðferðum samkeppnisréttarins. Þá telja þær aðferðafræði Samkeppniseftirlitsins vera algjörlega á skjön við þekkta framkvæmd við beitingu verðþrýstings.  Áður hafði Síminn fengið álit hagfræðinga Copenhagen Economics sem komust að sömu niðurstöðu. Það er sammerkt með álitsgjöfunum að vilja taka það sérstaklega fram að um sjálfstætt álit sé að ræða.

Áfrýjunarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi ekki brotið gegn 19. grein samkeppnislaga um villandi upplýsingagjöf og 50 milljóna króna sekt því felld niður. Síminn hefur í þessu máli sem og öðrum lagt áherslu á að veita Samkeppniseftirlitinu allar þær upplýsingar sem það óskar eftir við rannsókn mála.

Síminn telur að í ákvörðun sinni í mars síðastliðnum hafi Samkeppniseftirlitið ekki virt þá frumskyldu sína að vernda samkeppnina heldur sé verið að fordæma eðlilega háttsemi á samkeppnismarkaði til að vernda tiltekna keppinauta félagsins. Slík framganga er til þess fallin að skaða samkeppni og vera neytendum til tjóns þegar til lengri tíma er litið.

Síminn telur jafnframt að Samkeppnisyfirvöld hafi farið offari við ákvörðun sektarfjárhæðar. Síminn mun skjóta úrskurðinum til dómstóla.“