Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, um að sekta Símann um 150 milljónir króna vegna brota á samkeppnislögum, kemur Símanum á óvart.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum en eins og greint var frá fyrr í dag var félagið sektað um 150 milljónir króna vegna brota á samkeppnislögum.

„Um er að ræða mál sem snýst um dreifingu á gagnvirku sjónvarpi og meðhöndlun efnis í dreifikerfunum,“ segir í tilkynningu Símans.

„Fjölmargar sjónvarpsstöðvar hafa verið án endurgjalds á dreifikerfi Símans, til dæmis Ríkisútvarpið og opin dagskrá Stöðvar 2. Það er því nauðsynlegt fyrir Símann að fara afar vel yfir tæknilegar forsendur þessarar ákvörðunar.“

Þá segir Síminn að fjárhæð sektarinnar gefi auk þess tilefni til kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.