*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 29. október 2019 09:25

Síminn boðar frekari fækkun starfsmanna

Stöðugildum hjá Símanum hefur fækkað um 40 undanfarið ár og búist er við annarri eins fækkun næsta árið.

Ritstjórn
Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Haraldur Guðjónsson

Stöðugildum hjá Símanum hefur fækkað um 40 undanfarið ár og búist er við að stöðugildum muni fækka um annað eins til næsta hausts. Þetta segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, í nýbirtu uppgjöri fyrirtækisins fyrir fyrstu níu mánuði ársins. Orri segir að kostnaðaraðhald verði forgrunni í rekstri símans.

Á síðasta ári voru 699 ársverk unnin hjá Símanum en þau voru 805 árið 2016. Því fækkaði starfsmönnum um 13% á því tímabili. Síðan þá hefur starfsmönnum fækkað enn frekar.

Síminn hagnaðist um 2,3 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við 2,7 milljarða króna á sama tímabili fyrir ári. Rekstrarhagnaður lækkar úr 4 milljörðum í 3,75 milljarða króna á milli ára.

Á þriðja ársfjórðungi nam hagnaðurinn 897 milljónum króna miðað við 978 milljónir á sama tímabili 2018. Þá lækkar rekstrarhagnaður úr 1,44 milljörðum króna í 1,37 milljarða króna. 

Tekjur á þriðja ársfjórðungi 2019 námu 7.098 milljónum króna samanborið við 6.969 milljónir króna á sama tímabili 2018 og hækka um 1,9% milli tímabila.

EBITDA hlutfallið er 39,7% fyrir þriðja ársfjórðung 2019 en var 37,4% á sama tímabili 2018. Að teknu tilliti til breytinga vegna IFRS 16 þá nam EBITDA á 3F 2018 2.802 milljón króna og EBITDA hlutfall var 40,2%.

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 4.024 milljónum króna á 3F 2019 en var 2.515 milljónir króna á sama tímabili 2018. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 3.590 milljónum króna á 3F 2019 en 2.266 milljónum króna á sama tímabili 2018.

Vaxtaberandi skuldir námu 16,1 milljörðum króna í lok 3F 2019 en voru 17,2 milljarðar króna í árslok 2018. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 15,6 milljarðar króna í lok 3F 2019 en voru 16,0 milljarðar króna í árslok 2018.

Hrein fjármagnsgjöld námu 232 milljónum króna á 3F 2019 en voru 211 milljónir króna á sama tímabili 2018 þar af eru áhrif af breytingum vegna IFRS 16 67 milljónir króna á 3F 2019. Fjármagnsgjöld námu 296 milljónum króna, fjármunatekjur voru 55 milljónir króna og gengishagnaður var 9 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 55,4% í lok 3F 2019 og eigið fé 36,3 milljarðar króna.

 „Við erum sátt við rekstur samstæðunnar á þriðja ársfjórðungi. Ófyrirséðir atburðir voru fáir og EBITDA framlegð eykst lítillega milli ára. Fjarskiptarekstur Símans og Mílu er á sínum vænta gangi á síðari hluta þessa árs, helstu breytingum á reiki og heildsölu er nú lokið. Meðalverð þokast upp á einstaklingsmarkaði, eftir margra ára tímabil skarpra lækkana. Enn sér þó ekki fyrir endann á verðþrýstingi á fyrirtækjamarkaði. Sala á skýjaþjónustu hefur aukist hratt á árinu og er Sensa í stórum verkefnum er snúa að skýjavæðingu. Þetta hefur áhrif til framlegðar-lækkunar á þeirri þjónustu sem færist upp í skýið.  Fyrirtæki eru í auknum mæli að nýta sér skýjaþjónustu og er mikil og aukin eftirspurn eftir sérfræðiaðstoð og lausnum sem tengjast þeirri vegferð og er Sensa að styrkja sig enn frekar á þeim vettvangi,“ segir Orri og bætir við að fjárfestingar fari lækkandi.

„Fjárfestingar samstæðunnar í heild munu fara lækkandi á næstu misserum frá því sem nú er. Stafar sú lækkun fyrst og fremst af því hve langt ljósleiðaraverkefnið er komið. Lækkun fjárfestinga nemur í heild nokkur hundruðum milljónum milli ára á næsta ári,“ segir hann.

Stikkorð: Síminn Orri Hauksson