*

sunnudagur, 15. desember 2019
Innlent 27. apríl 2019 13:09

Síminn ekki bara þjónustuver

Forstjóri Símans svarar framkvæmdastjóra GR og er gagnrýninn á bæði fjármögnun en einnig niðurnjörvaða þjónusta veitunnar.

Höskuldur Marselíusarson
Orri Hauksson, forstjóri Símans, sér fram á að víða þurfi að grafa á ný upp götur og garða ef félagið fær ekki að kaupa hráan aðgang að innviðum Gagnaveitunnar.
Haraldur Guðjónsson

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir það rangt hjá Erlingi Frey Guðmundssyni framkvæmdastjóra Gagnaveitu Reykjavíkurekki hafi verið grafnir tvisvar skurðir í sömu götunni við lagningu ljósleiðara á höfuðborgarsvæðinu. Vill hann að borgarfyrirtækið selji öllum sem það vilja hráan aðgang að innviðum þess meðal annars til þess að fyrirtækið Míla, dótturfélag Símans þurfi ekki að grafa stóran hluta borgarinnar upp á nýtt.

Einnig segir Orri það vera vísvítandi rangfærslu hjá framkvæmdastjóra GR að Síminn bjóði ekki alla sjónvarpsþjónustu sína yfir öll net, en í Viðskiptablaðinu þann 4. apríl síðastliðinn sagði Erling Freyr að frá 16. desember 2015 hefðu viðskiptavinir á neti Gagnaveitunnar ekki haft aðgang að ólínulegu efni Sjónvarps Símans nema þá nýlega takmarkað aftur í tímann. Sem andsvar við því bendir Orri á þjónustu fyrirtækisins, í gegnum sérstakan myndlykil, sem heitir Sjónvarp Símans óháð neti.

„Það er alrangt hjá framkvæmdastjóra Gagnaveitunnar að ekki sé tvígrafið á Íslandi. Það hefur klárlega jafnvel verið gert í gegnum sama garðinn, og miklu meira hefði verið um það hefði Gagnaveitan ekki verið skikkuð til að láta af því að drífa sig í að moka yfir svo að annar aðili hefði tækifæri á að leggja sín rör í skurðinn,“ segir Orri.

„Téður framkvæmdastjóri barðist eins og naut í flagi gegn því mánuðum saman vorið 2017 þegar Kópavogsbær sagði að framkvæmdaleyfið yrði bara afturkallað ef þeir ynnu ekki með öðrum. Míla gróf upp á nýtt í sumum götum, en í mörgum tilfellum var ákveðið að vera ekkert að fara eftir þeim húsum, í bili. En þetta er hins vegar bara klink miðað við það sem er framundan, þegar endurgrafið verður hér að tugþúsundum heimila í mjög stórum hverfum og sveitarfélögum á suðvesturhorninu.“

Sem dæmi um þessi svæði nefnir Orri Seltjarnarnes og póstnúmer 104 og 105, ásamt Fossvoginum, í Reykjavík. Hins vegar hafa Gagnaveitan, og Míla, dótturfélag Símans, fengið samþykkt samkeppnisyfirvalda við samstarfi um lagningu sinna hvorra ljósleiðaranna á Arnarnesi í Garðabæ, í Hafnarfirði og víðar, sem Orri segir ganga mjög vel.

Hafnar tilboði GR

Orri segir tilboð GR um að Síminn komi inn í viðskipti ekki aðgengilegt á þeim forsendum sem fyrirtækið býður. „Borgarfyrirtækið vill halda ljósleiðaranum sjálfum lokuðum en bara selja heildstæða fjarskiptaþjónustu. Samkeppnin þar ofan á færi þá fram á afar takmörkuðu sviði af hálfu endanlegu þjónustuveitendanna, eins og í auglýsingum og vörumerki. Við viljum hins
vegar halda áfram að vera tæknifyrirtæki en ekki bara þjónustuver,“ segir Orri.

„Þeir eru eina fyrirtækið á Íslandi sem býður eingöngu svona niðurnjörvaða leið þar sem þeir eru allt í öllu í allri virðiskeðjunni, og bæði miðlægi stýri- og eftirlitsbúnaðurinn og endabúnaðurinn, það er ljósleiðaraboxið, sé allt hannað og stýrt af þeim. Alls staðar annars staðar í heiminum hafa kapalfyrirtæki og fjarskiptafyrirtæki verið að keppa um alls konar mismunandi lausnir inni á heimilunum, sem mun sérstaklega skipta meira máli í næstu umferð tækniþróunarinnar þegar fleiri og fleiri heimilistæki verða tengd interneti hlutanna. Með því að loka fyrir það er búið að kippa út svo miklum nýsköpunarkrafti og grósku í tæknilaginu ofan á hráu innviðunum.“

Tekur Orri í þessu samhengi dæmi af gagnaveitu Stokkhólmsborgar, Stokab. „Þar er allt í friði og spekt, með öllum sem þeir vinna með, neytendum, fjarskiptafélögum og hinu opinbera. Á Akureyri er ekki ósvipað félag og GR, sem heitir Tengir, sem er að hluta til í opinberri eigu og að hluta til ekki, sem selur fjölbreytta þjónustu líkt og Stokab, þar með talið opinn aðgang að hráum innviðum eins og við erum að biðja um. Sama á við um Hvalfjarðarsveit og víðar þar sem eru opin sveitanet, sem við, og fleiri, höfum verið að nota svo við höfum getað sleppt því að ræsa út skurðgröfuna,“ segir Orri.

„Að eigin sögn hefur GR þegar lagt ljósleiðara að 100 þúsund heimilum og höfum við árum saman óskað eftir því að fá að leigja umtalsverðan hluta af þessum heimtaugum GR, með sama hætti og önnur innviðafyrirtæki bjóða upp á. Myndu þau viðskipti örugglega nema hundruðum milljóna á ári sem maður hefði haldið að GR veitti ekki af að fá.“

Geta gjaldfellt ef eignarhlutur OR minnkar

Loks segir Orri fjármögnun Gagnaveitunnar vera óeðlilega og að núvirt virði fjárfestinga félagsins sé um 32 milljarðar íslenskra króna, en framkvæmdastjóri GR notaði töluna 25 milljarðar yfir fjárfestingar Gagnaveitunnar. Bendir Orri jafnframt á að fullyrðingar Erlings Freys stangist á við niðurstöðu úttektar Pósts- og fjarskiptastofnunar á fjárhagslegum aðskilnaði Gagnaveitu Reykjavíkur innan OR samsteypunnar.

Erling Freyr, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, lagði á það áherslu í áðurnefndu viðtali við Viðskiptablaðið að engar opinberar ábyrgðir væru á lánum fyrirtækisins og lánskjör þess því byggðar á trú fjármálastofnana á fjárhag Gagnaveitu Reykjavíkur, ekki annarra.

Í úttekt Pósts- og fjarskiptastofnunar á fjárhagslegum aðskilnaði Gagnaveitunnar innan samstæðu Orkuveitunnar fyrir árin 2016 til 2017 sem birt var á vef stofnunarinnar fyrir tæpum mánuði segir hins vegar að þó að meginniðurstaðan væri sú að fjárhagslegur aðskilnaður OR og GR væri í samræmi við ákvæði fjarskiptalaga, þá ætti það ekki við um lánveitingar til gagnaveitunnar úr sjóðspotti OR samstæðunnar.

Telur stofnunin að þessar skuldir, sem komið hafi til vegna framkvæmda á tímabilinu janúar til nóvember 2017, hafi brotið í bága við ákvarðanir stofnunarinnar frá árinu 2006 og 2010. Sú staða megi ekki koma upp á milli Gagnaveitunnar og samstæðu OR að félagið geti fengið jafnumfangsmikil lán án sérstakra lánasamninga.

Jafnframt gerir stofnunin athugasemd við skilyrði lánastofnana í lánasamningum við Gagnaveituna um að hægt sé að gjaldfella lánið, krefjast fyrirframgreiðslu eða segja upp samningi ef eignarhlutur OR í Gagnaveitunni fari undir 50%. Segir stofnunin slíkt ákvæði ekki samrýmast ákvæðum um rekstraraðskilnað í fjarskiptalögum. Leggur Póst- og fjarskiptastofnun því þær kvaðir á Gagnaveituna að hvoru tveggja verði hætt, nema Orkuveitan geti lánað úr sjóðspottinum að ákveðnu hámarki.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.