Síminn hefur tilkynnt um fyrirhugaðar breytingar á skipuriti félagsins sem fela í sér að sviðum fjölgar um tvö. Auglýst verður eftir tveim nýjum framkvæmdastjórum innan skamms en núverandi framkvæmdastjórar munu halda áfram störfum. Breytingarnar taka gildi þegar gengið hefur verið frá ráðningu framkvæmdastjóra á sviði sölu og þjónustu annars vegar og sjálfbærni og menningar hins vegar.

„Nýja skipulagið mun styðja við stuttar boðleiðir, ýta undir opin samskipti, fjölbreytt viðhorf og hraða ákvarðanatöku. Sérstök áhersla verður á sjálfbærni og sjálfsafgreiðslu. Markmið breytingarinnar er að auka ánægju viðskiptavina,“ segir í tilkynningu Símans til Kauphallarinnar.

Félagið birtir svo stutta lýsingu á hverju sviði sem fylgir með hér að neðan. Athygli vekur að sviðið Miðlun og markaðsmál muni koma á fót og reka vildarkerfi með hjálp fjártækni.

Sala og þjónusta - Samræmd og heildstæð sala og þjónusta við einstaklinga, heimili og fyrirtæki sem skapar jákvæða upplifun og fer fram úr væntingum.

Stafræn þróun - Stafræn þróun ber ábyrgð á að skapa, þróa og reka vörur og þjónustu Símans, þar sem viðskiptavinurinn, einfaldleiki og stafræn þróun er í forgrunni.

Miðlun og markaðsmál - Hlutverk sviðsins er að samþætta og þróa sjónvarpsþjónustu Símans til að bæta upplifun viðskiptavina og efla auglýsingasölu. Sviðið ber ábyrgð á ímynd og ásýnd vörumerkisins, sem nýtir betur styrkleika félagsins í sjálfbærum rekstri þess. Sviðið kemur einnig á fót og rekur vildarkerfi með hjálp fjártækni.

Fjármál og rekstur - Hlutverk fjármálasviðs er að miðla fjármagni með arðbærum og skilvirkum hætti, í samræmi við áherslur stjórnar. Innheimta er á ábyrgð sviðsins. Það tryggir ábyrg innkaup og annast rekstrargreiningar og áætlanagerð. Það er á ábyrgð fjármálasviðs að tryggja góðan rekstur.

Sjálfbærni og menning - Hlutverk sviðsins er að annast breytingar á Símanum inn á við, að efla jákvæð tengsl fyrirtækisins við starfsmenn sem og starfsmanna við viðskiptavini. Sviðið ber ábyrgð á að vinna heildstæða stefnu Símans er kemur að skipulagi, starfsmannahaldi, gæðamálum, húsnæði, öryggismálum og sjálfbærni.