Gengi bréfa Símans hækkaði um 5,21%, upp í 5,86 krónur, í 570,8 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru þriðju mestu viðskiptin með eitt félag í dag. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær jókst hagnaður félagsins um fjórðung á fyrsta ársfjórðungi.

Heildarviðskiptin í kauphöllinni námu 2,8 milljörðum króna, en mestu viðskiptin voru með bréf Brim, eða fyrir 691,2 milljónir króna, og hækkaði gengi þeirra um 2,09%, upp í 41,50 krónur. Næst mestu viðskiptin voru með bréf Marel, eða fyrir 620,2 milljónir króna, en bréf félagsins stóðu í stað í 622 krónum.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Origo, eða um 2,97%, upp í 24,25 krónur, í 83 milljóna króna viðskiptum, en þriðja mesta hækkunin var á bréfum Sjóvá sem hækkuðu um 2,13%, í 98 milljóna viðskiptum og nam lokagengi bréfa félagsins 19,15 krónum.

Mest lækkun var hins vegar á bréfum Icelandair, en þau lækkuðu um 4,40%, niður í 2,39 krónur, í 24 milljóna króna viðskiptum. Kvika banki lækkaði næst mest, eða um 3,61%, í 66 milljóna króna viðskiptum og fór verð bréfanna í 118,75 krónur.

Loks lækkaði gengi bréfa Festi um 1,45%, niður í 118,75 krónur, í 66 milljóna króna viðskiptum. Þess má geta að bæði Origo og Festi hafa skilað ársfjórðungsuppgjöri sínu í dag, sem og Eik og VÍS .

Krónan styrktist í dag gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, nema norsku krónunni, sem styrktist um 0,40% gagnvart þeirri íslensku, og fæst nú á 14,131 krónu. Evran veiktist um 0,13%, og fæst nú á 158,77 krónur, Bandaríkjadalur veiktist um 0,30%, niður í 146,33 krónur, og breska sterlingspundið veiktist um 0,21%, niður í 181,99 krónur.