Síminn hækkaði um 3,1% í 1.340 milljóna króna veltu í dag. Hlutabréfaverð Símans endaði daginn í 10,07 krónum á hlut sem er jafnframt hæsta gengi félagsins frá skráningu í Kauphöllina árið 2015. Fjarskiptafélagið hefur hækkað um fjórðung frá síðustu áramótum og um 114% frá því í mars á síðasta ári.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,15% í 2,9 milljarða króna viðskiptum í dag. Icelandair hækkaði um 2,6% í dag en hlutabréf flugfélagsins lækkuðu um 6% rétt fyrir lokun Kauphallarinnar í gær eða um það leytið sem fréttir bárust af mögulegu gosi á Reykjanesskaganum.

Mest lækkaði Sjóvá eða um 0,9% í 105 milljóna króna veltu. Marel lækkaði einnig um 0,5% og standa bréf félagsins nú í 892 krónum á hlut.

Arion banki hækkaði um 0,4% í 570 milljóna króna veltu. Viðskiptablaðið sagði frá því í morgun að vogunarsjóðurinn Taconic Capital, stærsti hluthafinn, hafi á undanförnum dögum selt um 2% hlut fyrir liðlega 4,5 milljarða króna. Taconic hefur því alls selt um 12% í Arion fyrir meira en 21,5 milljarða króna.