Úrvalsvísitala kauphallar Nasdsaq lækkaði um 0,71% í viðskiptum dagsins. Heildarvelta dagins nam rúmum 8 milljörðum. Úrvalsvísitalan stendur því nú í 1.696,26 stigum og hefur lækkað um 9,79% frá áramótum.

Mest hækkun var á bréfum Símans. Í gær kom út ársfjórðungsreikningur fyrirtækisins þar sem að fram kom að hagnaður fyrirtækisins jókst talsvert milli ára. Gengi hlutabréfa í Símanum hækkuðu um 4,03% í 586 milljón króna viðskiptum.

Næstmest hækkun var hjá TM í dag, en gengi bréfa félagsins hækkuðu um 2,33% í 283 milljón króna viðskiptum. Einnig hækkaði gengi bréfa í N1 en hækkunin nam 2,14% í 910 milljón króna viðskiptum.

Mest velta var með bréf Icelandair en hún nam 1,17 milljörðum. Gengi bréfa Icelandair hélst þó í stað.

Mest lækkaði gengi bréfa í Högum. Lækkunin nam 3,71% í 598 milljón króna viðskiptum í dag. Hagar högnuðust um 1,2 milljarða á öðrum ársfjórðungi, en reikningur félagsins var birtur í gær.

Vísitölur GAMMA

Markaðsvísitala GAMMA lækkaði um 0,5% í dag í 7,8 milljarða viðskiptum.

Hlutabréfavísitala GAMMA lækkaði um 0,5% í dag í 5,1 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði lítillega í dag í 2,5 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði lítillega í 0,4 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði lítillega í 2,2 milljarða viðskiptum.

Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hækkaði lítillega í dag í 0,1 milljarða viðskiptum.