Hlutabréf Símans hækkuðu um 6,9% í dag í kjölfar tilkynningar um viðræður um sölu fjarskiptafyrirtækisins á dótturfyrirtæki sínu, Mílu . Bréf Símans standa nú í 12,4 krónum á hlut og hafa aldrei verið hærri, en þau hafa hækkað um 54% það sem af er ári og 74% síðastliðið ár.

Flest félög á aðalmarkaði Kauphallarinnar, ásamt úrvalsvísitölunni, lækkuðu hinsvegar lítillega í 5,3 milljarða viðskiptum dagsins.

Velta með bréf símans nam 356 milljónum, en á eftir þeim hækkuðu bréf Icelandair mest, um 2,37% í 820 milljóna króna viðskiptum, og Origo hækkaði um 0,81% í 50 milljóna viðskiptum. Brim og Iceland Seafood hækkuðu einnig lítillega.

Önnur fyrirtæki ýmist lækkuðu eða stóðu í stað, en mestu nam lækkunin hjá Regni, 2,65% í 46 milljóna viðskiptum. Næstmesta lækkunin var einnig hjá fasteignafélagi, Eik, sem féll um 2,34% í 39 milljónum, en Eimskip kom þar á eftir með 2,07% lækkun í 143 milljóna viðskiptum.