Úrvalsvísitalan féll um 1,3% í 2,4 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Ellefu félög markaðarins voru rauð í viðskiptum dagsins og fjögur græn.

Hlutabréfaverð Marels lækkaði um 2,9%, mest af félögum Kauphallarinnar, í 82 milljóna veltu og stendur nú í 536 krónum á hlut. Gengið hefur engu að síður hækkað um 9% frá áramótum. Auk Marels þá féll gengi VÍS, Arion banka og Alvotech um meira en 2,5% í dag.

Mesta veltan var með hlutabréf Símans eða um 400 milljónir króna. Gengi fjarskiptafélagsins hækkaði um 2,4%, mest af félögum Kauphallarinnar, og stendur nú í 10,7 krónum á hlut. Hlutabréf Skeljar, Eimskips og Íslandsbanka hækkuðu einnig í dag, þó í lítilli veltu.

Það var meira um að vera á skuldabréfamarkaðnum í dag en veltan á honum nam 10,5 milljörðum króna. Hagstofan birti nýjar verðbólgutölur í morgun en verðbólga jókst úr 9,6% í 9,9% á milli desember og janúar.

Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hækkaði um 10-24 punkta í viðskiptum dagsins. Krafan á stystu verðtryggðu ríkisbréfunum í flokki RIKS 26 lækkaði um 8 punkta en krafan á verðtryggðum ríkisskuldabréfum í flokki RIKS 33 og RIKS 37 hækkaði um 3-6 punkta.