Tekjur á öðrum ársfjórðungi 2018 námu 7.153 milljónum króna samanborið við 7.254 milljónir króna á sama tímabili 2017. Leiðrétt fyrir seldri starfsemi eru tekjur nánast óbreyttar á milli ára.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA nam 2.216 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2018 samanborið við 2.191 milljónir króna á sama tímabili 2017 og hækkar því um 25 milljónir króna eða 1,2% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 31,0% fyrir annan ársfjórðung 2018 en var 30,2% á sama tímabili 2017.

Hagnaður á öðrum ársfjórðungi 2018 nam 853 milljónum króna samanborið við 790 milljónir króna á sama tímabili 2017.

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 2.118 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2018 en var 1.986 milljónir króna á sama tímabili 2017. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 1.768 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs 2018 en 1.864 milljónum króna á sama tímabili 2017.

Vaxtaberandi skuldir námu 17,9 milljörðum króna í lok annars ársfjórðungs 2018 en voru 18,4 milljarðar króna í árslok 2017. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 17,7 milljarðar króna í lok annars ársfjórðungs 2018 og eru óbreyttar frá árslokum 2017.

Hrein fjármagnsgjöld námu 190 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs 2018 en voru 258 milljónir króna á sama tímabili 2017. Fjármagnsgjöld námu 240 milljónum króna, fjármunatekjur voru 52 milljónir króna og gengistap var 2 milljónir króna.

Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 60,8% í lok 2F 2018 og eigið fé 36,5 milljarðar króna.

„Við erum ánægð með áframhaldandi rekstrarbata samstæðunnar á öðrum ársfjórðungi. Framlegð eykst lítillega miðað við fyrra ár og rekstrarkostnaður heldur áfram að þokast niður. Niðurstaðan batnar þannig á fyrri árshelmingi í heild,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.