*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 31. ágúst 2021 17:01

Síminn hagnast um 618 milljónir

Innlendir og erlendir fjárfestingarsjóðir hafa sýnt Mílu áhuga að sögn Orra Haukssonar, forstjóra Símans.

Ritstjórn
Orri Hauksson, forstjóri Símans
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður var af rekstri Símans á öðrum ársfjórðungi sem nemur 618 milljónum króna en á sama tíma á síðasta ári var hagnaður félagsins 83 milljónir. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 1,1 milljarði á öðrum fjórðungi samanborið við 335 milljónir á sama tímabili 2020. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri sem félagið birti eftir lokun Kauphallarinnar.  

Orri Hauksson bendir á í tilkynningu samhliða uppgjörinu að bætt afkoma milli ára skýrist meðal annars af sekt af hálfu Samkeppniseftirlitsins á öðrum fjórðungi 2020 vegna pakkatilboðs á enska boltanum ásamt „umtalsverðum uppsagnarkostnaði“ sem kom til á því tímabili. Sé þó leiðrétt fyrir þessum þáttum er áfram jákvæð þróun í öllum undirliggjandi rekstrarþáttum að sögn Orra.

Tekjur fjarskiptafélagsins jukust um 2,2% milli ára og námu 6.352 milljónum á öðrum fjórðungi ársins. Handbært fé frá rekstri nam 2.424 milljónum á öðrum ársfjórðungi en var 2.481 milljónir á sama tímabili 2020.

Orri segir að starfsemi Símans á síðasta ársfjórðungi litast af mörgum aðgerðum sem komu ekki fram nema að hluta í uppgjörstölum og nefnir sem dæmi breyttrar verkaskiptingar innan félagsins og úrvinnslu nýrrar fjármögnunar.

Síminn endurfjármagnaði langtímalán sín á tímabilinu, annars vegar með langtímaláni frá Arion að fjárhæð 6 milljörðum og svo með langtímaláni frá Íslandsbanka að fjárhæð 20 milljörðum auk eins milljarða króna lánalínu. Í lok júní gaf félagið út skammtímavíxla að fjárhæð 1,5 milljörðum.

Eignir félagsins námu 69,6 milljörðum í lok júní. Eigið fé nam 31,1 milljarði og eiginfjárhlutfallið var 44,7%.

Veturinn nýttur til að ljúka stefnumörkun um Mílu

Í fjárfestakynningu Símans segir að uppfærsla og uppbygging Mílu á 5G sendum fyrir Símann gangi í samræmi við áætlanir og verður opnað á almenna umferð á 5G kerfinu í haust. Þegar hafi 12 sendar verið gangsettir á höfuðborgarsvæðinu og stefnt er á að fjórðungur landsmanna geti tengst 5G kerfi fyrirtækisins í lok árs.

Í apríl tilkynnti félagið um að fjárfestingabankann Lazard ásamt Íslandsbanka hafi verið ráðnir til að ráðleggja um framtíðarmöguleikar Mílu sem sjálfstæðs félags, þar á meðal framtíðar eignarhaldi. Orri segir að ekkert hafi enn verið ákveðið í þeim efnum.

„Innlendir og erlendir fjárfestingarsjóðir hafa sýnt félaginu áhuga og verður rætt nánar við valda aðila í framhaldinu. Veturinn verður því nýttur til að ljúka stefnumörkun um félagið.“

Fram kemur að söluandvirði dótturfélagsins Sensa, sem var selt til norska félagsins Crayon Group, hafi verið að fullu greitt á öðrum ársfjórðungi. Endanlegt söluverð nam 3.710 milljónum króna.

Stikkorð: Síminn Orri Hauksson Míla Sensa