Hlutabréfaverð Símans stendur nú 5,51 krónu á hlut og hefur aldrei verið hærra eftir að hafa hækkað um 3% í 550 milljóna viðskiptum dagsins en félagið mun birta uppgjör fyrir fjórða ársfjórðung 2019 eftir lokun markaða á morgun. Markaðsvirði félagsins nemur nú um 49,5 milljörðum króna.

Óhætt er að segja að grænt hafi verið yfir hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar í dag en öll félög á aðalmarkaði hækkuðu í verði fyrir utan bréf Heimavalla sem stóðu í stað. Mest hækkun var á bréfum Sjóvá eða 4,3% í 445 milljóna viðskiptum en bréf tryggingafélagsins hafa nú hækkað um 11% frá því að félagið birti uppgjör fyrir fjórða ársfjórðung síðastliðinn fimmtudag.

Alls hækkuðu átta félög um meira en tvö prósent í viðskiptum dagsins en bréf Skeljungs hækkuðu um 2,94% í 222 milljóna viðskiptum, bréf Sýnar um 2,64% og bréf TM um 2,24% 58 milljóna viðskiptum.

Heildarviðskipti dagsins námu samtals tæplega 5,9 milljörðum króna en mest velta var með bréf Marel sem hækkuðu um 0,85% í um 1,35 milljarða viðskiptum. Alls áttu 236 viðskipti sér stað í dag en flest þeirra voru með bréf Símans og VÍS eða 28.

Þá hækkaði úrvalsvísitalan um 1,28% og stendur nú í 2.140 stigum.