

Gengi bréfa Símans hækkaði um 2,97% í 401 milljóna króna viðskiptum dagsins, sem jafnframt voru þau næstmestu með bréf í einu félagi í dag. Þar með fór gengi bréfanna í 7,98 krónur, og hefur lokagengi bréfanna þar með aldrei verið hærra. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum hefur gengi bréfa félagsins hækkað mest allra félaga á árinu eða um tæplega helming.
Næst mest var hækkun gengis bréfa Eimskipafélags Íslands, eða um 2,38%, upp í 215,0 krónur, í 117 milljóna króna viðskiptum.
Hækkun bréfa Haga var svo sú þriðja mesta, eða um 1,84%, í jafnframt þriðju mestu viðskiptunum, eða fyrir 335,1 milljón króna, og nam lokagengi bréfa félagsins 55,3 krónum.
Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Skeljungs, eða fyrir ríflega 2,9 milljarða króna, en gengi bréfa félagsins hækkuðu um 0,58% í þeim, upp í 8,72 krónur.
Eins og fjallað hefur verið ítarlega um í Viðskiptablaðinu hafa þrjú félög tengd Ingibjörgu Pálmadóttur og fleiri aðilum gert yfirtökutilboð í félagið og boðið 8,315 krónur fyrir hvert bréf. Langstærsti hluti viðskiptanna var einmitt á því gengi undir lok viðskiptadagsins.
Þar með námu viðskiptin með bréf Skeljungs um helmingi viðskipta á hlutabréfamarkaði kauphallarinnar í dag, en þau námu 5,8 milljörðum í heildina. Hækkaði Úrvalsvísitalan um 0,42% í þeim, up í 2.332 stig.
Gengi bréfa TM lækkaði hins vegar mest í viðskiptum dagsins, eða um 0,68%, niður í 47,68 krónur, í 48 milljóna króna viðskiptum.
Næst mest lækkun var á gengi bréfa Festi, eða um 0,32%, niður í 157,50 krónur, í 102 milljóna króna viðskiptum.
Sýn hækkaði síðan þriðja mest, eða um 0,26%, niður í 37,65 krónur, í 46 milljóna króna viðskiptum. Einungis eitt annað félag lækkaði í virði í viðskiptum dagsins, það er Sjóvá, eða um 0,09%, í 135 milljóna króna viðskiptum og fór gengi bréfa félagsins niður í 26,48 krónur.
Gengi krónunnar styrktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum í dag, mest þó gagnvart japanska jeninu, sem veiktist um 1,23% gagnvart krónunni og fæst nú á 1,2533 krónur. Gengi Bandaríkjadals veiktist um 1,14% gagnvart krónunni, og fór hann niður í 130,96 krónur, og gengi evrunnar veiktist um 0,50%, niður í 157,48 krónur.