Gengi bréfa Símans hækkaði um 2,97% í 401 milljóna króna viðskiptum dagsins, sem jafnframt voru þau næstmestu með bréf í einu félagi í dag. Þar með fór gengi bréfanna í 7,98 krónur, og hefur lokagengi bréfanna þar með aldrei verið hærra. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum hefur gengi bréfa félagsins hækkað mest allra félaga á árinu eða um tæplega helming.

Næst mest var hækkun gengis bréfa Eimskipafélags Íslands, eða um 2,38%, upp í 215,0 krónur, í 117 milljóna króna viðskiptum.
Hækkun bréfa Haga var svo sú þriðja mesta, eða um 1,84%, í jafnframt þriðju mestu viðskiptunum, eða fyrir 335,1 milljón króna, og nam lokagengi bréfa félagsins 55,3 krónum.

Nærri 3 milljarða viðskipti með bréf Skeljungs á yfirtökugengi

Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Skeljungs, eða fyrir ríflega 2,9 milljarða króna, en gengi bréfa félagsins hækkuðu um 0,58% í þeim, upp í 8,72 krónur.

Eins og fjallað hefur verið ítarlega um í Viðskiptablaðinu hafa þrjú félög tengd Ingibjörgu Pálmadóttur og fleiri aðilum gert yfirtökutilboð í félagið og boðið 8,315 krónur fyrir hvert bréf. Langstærsti hluti viðskiptanna var einmitt á því gengi undir lok viðskiptadagsins.

Þar með námu viðskiptin með bréf Skeljungs um helmingi viðskipta á hlutabréfamarkaði kauphallarinnar í dag, en þau námu 5,8 milljörðum í heildina. Hækkaði Úrvalsvísitalan um 0,42% í þeim, up í 2.332 stig.

Gengi bréfa TM lækkaði hins vegar mest í viðskiptum dagsins, eða um 0,68%, niður í 47,68 krónur, í 48 milljóna króna viðskiptum.
Næst mest lækkun var á gengi bréfa Festi, eða um 0,32%, niður í 157,50 krónur, í 102 milljóna króna viðskiptum.

Sýn hækkaði síðan þriðja mest, eða um 0,26%, niður í 37,65 krónur, í 46 milljóna króna viðskiptum. Einungis eitt annað félag lækkaði í virði í viðskiptum dagsins, það er Sjóvá, eða um 0,09%, í 135 milljóna króna viðskiptum og fór gengi bréfa félagsins niður í 26,48 krónur.

Gengi krónunnar styrktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum í dag, mest þó gagnvart japanska jeninu, sem veiktist um 1,23% gagnvart krónunni og fæst nú á 1,2533 krónur. Gengi Bandaríkjadals veiktist um 1,14% gagnvart krónunni, og fór hann niður í 130,96 krónur, og gengi evrunnar veiktist um 0,50%, niður í 157,48  krónur.