*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 10. maí 2019 18:30

Síminn í nærri 4 milljarða viðskiptum

Hækkun Símans nam nærri 8% en Origo hækkaði um rúm 4%. Marel annað tveggja félaga sem lækkaði.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,60%, upp í enn eitt metlokagengið, 2.160,40 stig, en heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag námu 6,1 milljarði. Alger hástökkvari dagsins voru bréf Símans, sem hækkuðu um 7,83%, upp 4,27 krónur, í 3,9 milljarða viðskiptum, en það voru jafnframt langmestu viðskiptin í dag.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag keyptu Stoðir í félaginu fyrir um 1,3 milljarða í félaginu í dag og eiga nú rúmlega 8% í félaginu. Næst mesta hækkunin, sem á venjulegum degi þætti mikið stökk, er 4,39% á gengi bréfa Origo, enduðu þau í 22,60 krónum eftir 187 milljón króna viðskipti.

Einu tvö félögin sem lækkuðu í virði í kauphöllinni í dag voru Sjóvá, sem lækkuðu um 0,28% í 166 milljóna viðskiptum, enduðu í 17,70 krónum og svo 0,17% lækkun hjá Marel, niður í 593,00 krónur hvert bréf, í 239 milljóna viðskiptum.

Íslenska krónan styrktist gagnvart öllum helstu viðskiptamynntum sínum, utan norsku krónunnar sem hækkaði um 0,09% gagnvart þeirri íslensku og fæst nú á 13,904 krónur. Mest var veiking Bandaríkjadals gagnvart krónunni, eða 0,47% og fæst hún nú á 121,33 krónur.

Stikkorð: Marel Sjóvá Síminn Origo